Endurmenntun
Eftir að aðili hefur öðlast löggildingu til endurskoðunarstarfa er honum skylt að sækja endurmenntun sem tryggir að hann viðhaldi reglulega fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og faglegum gildum. Nánari ákvæði um endurmenntun endurskoðenda eru í reglugerð nr. 665/2020.
Kröfur um endurmenntun
Endurmenntun endurskoðanda skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili. Endurmenntun á hverju þriggja ára tímabili skal ná a.m.k. til eftirtalinna sviða og skal lágmark endurmenntunar á hverju sviði vera:
1. Endurskoðun 30 klukkustundir. Sem dæmi um viðfangsefni eru, alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar og aðrar staðfestingar (IFAC International Assurance Pronouncements), áhættustýring og innra eftirlit, lagakröfur og aðrir faglegir staðlar sem tengjast endurskoðun og endurskoðendum.
2. Reikningsskil og fjármál 20 klukkustundir. Sem dæmi um viðfangsefni eru lög um ársreikninga og önnur sérlög og reglugerðir um reikningsskil sem og samstæðureikningsskil og settar reikningsskilareglur á grundvelli þeirra, alþjóðlegir reikningsskilastaðlar og greining fjárhagsupplýsinga, kostnaðarbókhald og stjórnendareikningsskil.
3. Skatta- og félagaréttur 15 klukkustundir. Sem dæmi um viðfangsefni eru skattalög, félagaréttur og stjórnarhættir fyrirtækja.
4. Siðareglur og fagleg gildi 10 klukkustundir. Sem dæmi um viðfangsefni eru siðareglur endurskoðenda, leiðbeiningar um góða stjórnhætti og fyrirmæli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Hvað telst til endurmenntunar
Þátttaka endurskoðanda í faglegum námskeiðum og ráðstefnum telst til endurmenntunar, þar með talið þátttaka á námskeiði sem fram fer með rafrænum hætti. Einnig telst þátttaka endurskoðanda í faglegu nefndarstarfi félagasamtaka endurskoðenda, prófnefndar endurskoðenda og endurskoðendaráðs til endurmenntunar. Þá teljast kennslustörf og fyrirlestrahald endurskoðanda til endurmenntunar ef um er að ræða efni sem snertir endurskoðun, reikningsskil, fjármál, skatta- eða félagarétt eða siðareglur endurskoðenda. Blaða- og greinaskrif geta talist til endurmenntunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Loks getur lestur faglegs efnis talist til endurmenntunar, þó að hámarki 10 klukkustundir á ári.
Skráning og eftirlit
Endurskoðendaráð hefur eftirlit með því að endurskoðandi uppfylli kröfur um endurmenntun.
Endurskoðandi skal halda skrá yfir endurmenntun sína og skal halda utan um staðfestingar á endurmenntun.
Ef sérstakar ástæður gefa tilefni til getur endurskoðendaráð veitt endurskoðanda sem ekki hefur lokið tilskildum fjölda klukkustunda í endurmenntun frest til að ljúka endurmenntun sem á vantar. Beiðni um undanþágu ásamt rökstuðningi skal berast ráðinu fyrir 1. febrúar vegna endurmenntunartímabils sem lýkur 31. desember árið á undan.